Innlent

Tekið tillit til vanda framhaldsskólanna

Menntamálaráðherra segir ótækt að sumir skólar ráði ekki við að borga forfallakennurum laun. Tekið verði sérstakt tillit til framhaldsskólanna í fjárlögum næsta árs.fréttablaðið/gva
Menntamálaráðherra segir ótækt að sumir skólar ráði ekki við að borga forfallakennurum laun. Tekið verði sérstakt tillit til framhaldsskólanna í fjárlögum næsta árs.fréttablaðið/gva
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að sérstakt tillit verði tekið til framhaldsskólanna í fjárlagavinnu næsta árs. Eigi það bæði við um skólana í heild, en einnig einstaka skóla sem standa illa. Niðurskurður í rekstri skólanna hafi verið mikill og ýmsir framhaldsskólar eigi mjög erfitt.

„Smærri skólar úti á landi hafa verið nefndir til sögunnar. Þeir eiga í erfiðleikum og ekkert má út af bregða í þeirra rekstri. Skólar eins og bekkjarkerfisskólarnir í Reykjavík eiga einnig í vanda. Þeir hafa boðið upp á bóknám og hafa þar af leiðandi ekki getað tekið þátt í verkefninu Nám er vinnandi vegur. Þeir eru orðnir mjög aðþrengdir með sína starfsemi.“

Katrín segir það verkefni hafa gefið góða raun og fyrstu teikn séu nú á lofti um að brottfall sé að minnka. Tölur séu þó lítt marktækar og lengri tíma þurfi til að meta árangurinn. Aldrei hafi þó fleiri verið í námi en einmitt núna.

Atvinnuleysi hefur lengst af verið lítið hér á landi og Katrín segir að kerfið hafi einfaldlega ekki verið í stakk búið við að taka á móti miklum fjölda atvinnulausra. Margir sem hafi misst vinnuna hafi ekki komist í nám og þurft að þiggja atvinnuleysisbætur.

„Þó að við sjáum sem betur fer fram á minnkandi atvinnuleysi þarf kerfið samt sem áður að vera tilbúið að takast á við það. Það þarf einmitt að virka þannig að fólk fari frekar í nám. Ég held að við eigum að draga lærdóm af verkefninu og hafa þessi úrræði varanlega inni í kerfinu.“

Katrín segist ekki geta lofað auknum fjármunum í skólakerfið núna, en ef svigrúm skapist, eins og vonir standi til, séu næg verkefni og horft verði sérstaklega til framhaldsskólanna. Hins vegar sé staða framhaldsskólanna verulegt áhyggjuefni.

„Niðurskurðurinn var þannig að allt aukreitis var skorið af. Það er mjög erfitt og þungt viðureignar ef skólarnir geta ekki einu sinni borgað forfallakennurum laun lengur. Ef þetta hangir á því að enginn má veikjast í kennaraliðinu erum við farin að horfa á að þetta ógni strúktúrnum. Þannig er staðan sums staðar.“kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×