Freddi Ljungberg, fyrrverandi leikmaður Arsenal og sænska landsliðsins, hefur lagt skóna á hilluna. Fjölmiðlafulltrúi hans staðfesti það í samtali við sænska ríkissjónvarpið í dag.
Ljungberg, sem er 35 ára, lék 75 landsleiki fyrir þjóð sína en hefur verið án félags frá því í febrúar þegar hann komst að samkomulagi um starfslok við Shimizu S-Pulse í Japan.
Ljungberg var hluti af sigursælu liði Arsenal sem fór meðal annars ósigrað í gegnum keppnistímabilið 2003-2004. Hann gekk síðar til liðs við West Ham þar sem flest gekk honum í óhag.
Hann lék tvívegis með þjóð sinni á heimsmeistaramóti og tvisvar á Evrópumeistaramóti áður en hann lagði landsliðsskóna á hilluna árið 2008.
Ljungberg gat sér gott orð sem undirfatafyrirsæta hjá Calvin Klein auk þess sem skrautlegar hárgreiðslur settu svip sinn á enska boltann.
