Innlent

Breytinga að vænta á tryggingakerfinu

Tryggingastofnun
Tryggingastofnun
„Þetta er ekki beint hvetjandi kerfi. Þegar það breytir engu hvort að maður sé í fullri vinnu eða hálfri þá er ekkert skrýtið að fólk sé ekkert að hafa áhyggjur af því að vinna."

Þetta segir Andri Valgeirsson, 27 ára gamall Reykvíkingur sem er hreyfihamlaður. Andri stefnir á að mennta sig í haust og hefur ákveðið fara úr 100 prósent vinnu niður í 50 prósent.

„Þá fór ég í reiknivélina hjá Tryggingastofnun og stimpla þar inn þau laun sem ég er með núna og þau laun sem ég kem til með að hafa þegar ég minnka við mig. Þá kemur í ljós að launin mín lækka um rúmlega 1.000 krónur."

Andri segir almannatryggingakerfið eins og það sé nú vera letjandi. „Þetta er kannski fínt þegar maður er fara úr fullri vinnu í hálfa en hvað gerist þegar dæminu er snúið við?"

Álfheiður Ingadóttir, þingkona vinstri grænna og formaður velferðarnefndar.
Álfheiður Ingadóttir, þingkona vinstri grænna og formaður velferðarnefndar, tekur undir með Andra.

„Það er verið að undirbúa umfangsmiklar breytingar á tryggingakerfinu. Hvað varðar örorkumatið þá viljum við frekar horfa til starfsgetunnar en ekki einblína á örorkuna sem slíka."

Þá miða breytingarnar að því að draga úr skerðingum og að einfalda tryggingakerfið. Álfheiður bendir á að málið hafi farið í nefnd nýlega og á hún von á að frumvörp sem taka á þessum málum verði lögð fram í haust.

„Þessar breytingar koma til með að kosta ríkissjóð talsvert," segir Álfheiður. „En menn telja að það sé mikilvægt að einfalda þessi mál. Tekjuskerðingarnar eru miklar og vinnum að því markvisst að draga úr þeim og einfalda kerfið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×