Fótbolti

Tvö tíu marka tímabil á sama árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð fagnar með Heerenveen.
Alfreð fagnar með Heerenveen.
Alfreð Finnbogason hefur raðað inn mörkum á árinu 2012 og hefur náð klassísku takmarki markaskorarans á tveimur stöðum – með Helsingborg í Svíþjóð og Heerenveen í Hollandi. Fréttablaðið skoðar í dag frammistöðu þessa sjóðheita markaskorara úr Kópavo

Alfreð Finnbogason var í hörkubaráttu um markakóngstitilinn í sænsku deildinni í byrjun ágúst þegar hann söðlaði um og fór yfir til Marco Van Basten í Hollandi. Nú þremur mánuðum síðar er Alfreð aftur í baráttu um markakóngstitil og nú í hollensku deildinni.

Alfreð tryggði Heerenveen jafntefli á móti VVV-Venlo um síðustu helgi og náði þá því magnaða afreki að eiga tvö tíu marka tímabil á sama árinu.

Alfreð fór reyndar rólega af stað með Helsingborg í Svíþjóð eftir að hafa verið lánaður þangað frá belgíska félaginu Lokeren. Í maímánuði fór Alfreð hins vegar að raða inn mörkum og eftir að hafa skorað tvö mörk í sigri á Kalmar var hann búinn að skora 9 mörk í 8 leikjum.

Alfreð hafði verið í láni hjá sænska liðinu en 16. ágúst seldi Lokeren hann til Heerenveen þar sem hann skrifaði undir þriggja ára samning. Ekki skemmdi þar fyrir að Alfreð hitti þar fyrir Marco van Basten, sem er af mörgum talinn vera einn allra fremsti framherji allra tíma.

Van Basten setti Alfreð inn í byrjunarliðið í fyrsta leik og þar hefur hann verið síðan. Alfreð skoraði ekki í fyrsta leik, markalausu jafntefli við AZ Alkmaar, en skoraði hins vegar tvö mörk á stóra sviðinu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Ajax. Alfreð skoraði síðan í fimm leikjum í röð frá 29. september til 4. nóvember og hefur nú alls skorað 10 mörk í fyrstu 12 deildarleikjum sínum með Heerenveen.

Alfreð skoraði auk þess fernu í bikarsigri á Kozakken Boys í lok september og er alls kominn með 30 mörk í 43 leikjum fyrir Lokeren, Helsingborg, Heerenveen og íslenska landsliðið á árinu 2012.

Alfreð fær ekki bæði tímabilin hjá Helsingborg og Heerenveen tekin gild í keppninni um Gullskó Evrópu heldur aðeins annað þeirra en annars væri staðan eins og sjá má hér til hliðar. Alfreð fær eitt stig fyrir öll mörkin sín í Svíþjóð en 1,5 stig fyrir hvert mark í Hollandi. Leikmenn í bestu deildunum eins og í Englandi og Spáni fá síðan tvö stig fyrir hvert mark.

Nú eru enn eftir fimm leikir á árinu og hver veit því hver lokatalan verður á einu mesta markaári íslensks leikmanns fyrr og síðar.

Ætti toppslagurinn um Gullskó Evrópu að standa svona núna?

Alfreð Finnbogason væri fyrir ofan þá Cristiano Ronaldo og Zlatan Ibrahimovic í keppninni um Gullskó Evrópu ef hann fengi bæði tímabilin hjá Helsingborg og Heerenveen tekin gild.

Gullskór Evrópu 2012-13 er verðlaun fyrir þær deildir sem eru spilaðir um sumarið 2012 og um veturinn 2012-13. Samkvæmt reglum UEFA þá fá leikmenn hins vegar aðeins annað tímabilið tekið gilt hafi þeir náð að spila bæði í sumar- og vetrardeild á tímabilinu.

Alfreð fær eitt stig fyrir öll mörkin sín í Svíþjóð en 1,5 stig fyrir hvert mark í hollensku deildinni sem er talin vera betri. Leikmenn í bestu deildunum eins og í Englandi og Spáni fá síðan tvö stig fyrir hvert mark.

Staðan í baráttunni um Gullskó Evrópu

1. Lionel Messi, Barcelona 19 mörk – 38 stig

2. Arturas Rimkevicius, Siauliai (Litháen) 35 mörk – 35 stig

3. Alfreð Finnbogason, Helsingborg/Heerenveen 22 mörk – 27 stig

4. Henrikh Mkhitaryan, Shakhtar Donetsk (Úkraínu) 17 mörk – 25,5 stig

4. Philipp Hosiner, Austria Wien (Austurríki) 17 mörk – 25,5 stig

6. Cristiano Ronaldo, Real Madrid (Spáni) 12 mörk – 24 stig

6. Zlatan Ibrahimovic, Paris Saint-Germain (Frakklandi) 12 mörk – 24 stig








Fleiri fréttir

Sjá meira


×