Innlent

Stjórnarskrá Íslands ramminn sem hélt

Vigdís Finnbogadóttir, forveri Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands, heilsaði forsetahjónunum eftir að Ólafur sór embættiseið á Alþingi í gær
Vigdís Finnbogadóttir, forveri Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands, heilsaði forsetahjónunum eftir að Ólafur sór embættiseið á Alþingi í gær .Fréttablaðið/Stefán
Ólafur Ragnar Grímsson sór embættiseið sem forseti Íslands í fimmta skipti í gær. Sagði fimm kosningar frá hruni sýna kosti stjórnarskrárinnar en minntist ekki á kosningar til stjórnlagaráðs. Vill að kjörnir fulltrúar láti af átökum.

Íslenska stjórnarskráin er rammi sem hefur haldið í gegnum tíðina og veitti á síðustu árum svigrúm til að mæta kröfum mótmælenda með því að gera upp mál með þjóðaratkvæðagreiðslum, sagði Ólafur Ragnar Grímsson í ræðu eftir að hann sór embættiseið í fimmta skipti á Alþingi í gær.

„Það sýnir kosti þeirrar stjórnarskrár sem þjóðin sameinaðist um við lýðveldisstofnun að í kjölfar bankahrunsins veitti hún fólkinu í landinu fimm sinnum vald til að kveða upp sinn dóm: í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna, í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og í nýlegu forsetakjöri,“ sagði Ólafur Ragnar.

Hann minntist hins vegar ekki á sjöttu kosningarnar sem haldnar hafa verið frá hruni, þegar þjóðin kaus fulltrúa á stjórnlagaþing, sem Hæstiréttur dæmdi raunar ólögmætar.

Ólafur vék þó að yfirlýstum tilgangi með þeim kosningum, að breyta stjórnarskránni. „Íslendingar hafa ávallt borið gæfu til að ná víðtækri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá, skapa einhug sem í aðdraganda aldamóta birtist við afnám deildaskiptingar Alþingis, mótun nýs kafla um mannréttindi og breytta tilhögun þingrofsins.“

Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar eiga að taka höndum saman og láta af átökum, sagði Ólafur Ragnar, sem sagði þjóðina biðja um slík þáttaskil.

„Þjóðin vill geta treyst Alþingi og öðrum stofnunum lýðveldisins.Samstaða um hin stærstu mál í stað sífellds ágreinings er vísasti vegurinn til að endurvekja traustið sem löggjafanum er nauðsynlegt,“ sagði Ólafur.

„Því heiti ég á þessari stundu á okkur öll, sem sækjum umboð til þjóðarinnar, heiti á Alþingi og sveitarstjórnir, alla sem kjörnir eru til ábyrgðar, að við tökum upp nýja siði, látum átökin víkja og röðum verkefnum á þann veg að breiður stuðningur verði að baki ákvörðunum.“brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×