Fótbolti

Zlatan við sænsku blaðamennina: 95 prósent skrifa ykkar algjört bull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Zlatan Ibrahimovic er ekki hrifinn af sænskum blaðamannamönnum og hann fékk útrás fyrir óánægju sína á blaðamannafundi fyrir komandi landsleik Svía og Færeyinga á föstudaginn.

Svíar byrjuðu undankeppnina á 2-0 sigri á Kasakstan en sænska liðið varð engu að síður fyrir mikilli gagnrýni í sænsku blöðunum. Zlatan spilaði allan leikinn og lagði upp seinna markið fyrir Marcus Berg.

„Það eina sem þið eruð að bíða eftir er að þetta fari að ganga illa hjá okkur. Þannig virka fjölmiðlarnir. Þið byggið menn upp til þess að geta brotið þá niður," sagði Zlatan Ibrahimovic á blaðamannafundinum.

„Þið hafið byggt mig upp en ykkur hefur ekki enn tekist að brjóta mig niður," bætti Zlatan við en hann hefur skorað 33 mörk í 82 landsleikjum fyrir Svía auk þess að fara á kostum með liðum sínum á Ítalíu, í Hollandi, á Spáni og í Frakklandi.

„Ég hef sagt þetta áður. 95 prósent skrifa ykkar er algjört bull, þið hafið litlar heimildir fyrir 2,5 prósent skrifanna og kannski eru 2,5 prósent skrifanna sannar," sagði Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×