Fótbolti

Messi og Falcao á skotskónum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna í nótt.
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna í nótt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi og Radamel Falcao voru mennirnir á bak við sigra sinna landsliða í Undankeppni HM í nótt. Messi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Argentínu á Úrúgvæ og Falcao skoraði bæði mörk Kólumbíu í 2-0 sigri á Paragvæ. Báðar þjóðir eru í góðum málum í tveimur efstu sætum Suður-Ameríku riðilsins.

Lionel Messi skoraði fyrsta og þriðja mark Argentínumanna í sigrinum á nágrönnunum frá Úrúgvæ en hann kom einnig að undirbúningnum fyrir annað markið sem Manchester City maðurinn Sergio Aguero skoraði. Angel Di Maria átti stoðsendingarnar í tveimur fyrstu mörkunum en Messi skoraði lokamarkið beint úr aukaspyrnu.

Radamel Falcao, leikmaður Atlético Madrid, skoraði bæði mörkin í seinni hálfleik þegar Kólumbíu vann 2-0 heimasigur á Paragvæ. Fyrra markið kom á 52. mínútu en það síðara á 90. mínútu. Falcao var að skora í þriðja leiknum í röð í keppninni eftir að hafa "bara" skorað 1 mark í fyrstu 5 leikjunum.

Þeir Messi og Falcao voru ekki þeir einu sem skoruðu tvennu í Suður-Ameríku riðlinum í gær því Felipe Caicedo, leikmaður Lokomotiv Moskvu, skoraði tvennu í 3-1 sigri Ekvador á Chile.

Argentínumennirnir Gonzalo Higuaín og Lionel Messi og Úrúgvæmaðurinn Luis Suárez hafa allir skorað sex mörk í fyrstu átta umferðunum en Radamel Falcao er kominn með fimm mörk.

Argentína er á toppnum með 17 stig, Kólumbía og Ekvador eru með 16 stig og svo koma Úrúgvæ og Chile jöfn með 12 stig í 4. og 5. sæti. Fjórar efstu þjóðirnar komast beint inn á HM en fimmta þjóðin fer í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×