Innlent

"Mikilvægasta lið ÓL? Nú, íslenska handboltalandsliðið"

Frá leik Íslendinga og Argentínumanna á Ólympíuleikunum í Lundúnum.
Frá leik Íslendinga og Argentínumanna á Ólympíuleikunum í Lundúnum. mynd/AP
„Fyrir okkur er handbolti ekki aðeins íþrótt, heldur sjálfur mergur þjóðarsálarinnar." Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við fréttamann bandaríska tímaritsins Time, stuttu eftir að íslenska handboltalandsliðið hafði borið sigur úr býtum gegn Argentínumönnum.

Íslenska handboltaliðið og stuðningsmenn þess hafa vakið þó nokkra athygli í Lundúnum, ekki síst fyrir þær sakir að sjálfur forseti lýðveldisins situr meðal áhangenda. Þetta kveikti að minnsta kosti forvitni blaðamanns Time. Hann fór því á stúfana og kynnti sér málið.

Fréttamaðurinn bendir á að landsliðið hafi unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Ísland er minnsta landið til að ná svo langt í hópíþrótt í sögu leikanna. Þá hafi 40 þúsund manns tekið á móti hetjunum þegar þeir sneru heim. Fálkaorðan beið þeirra síðan á Bessastöðum.

Aðeins nokkrum vikum eftir þessa miklu sælu kom hrunið. Nú þegar land og þjóð réttir úr kútnum þá sé það augljóst að handboltinn hafi hjálpað til. „Eftir þetta mikla áfall ákvað þjóðin að horfa fram á veginn," sagði Ólafur. „Og handboltalandsliðið átti stóran þátt í því."

Greinin endar á því að blaðamaðurinn spyr Ólaf hvort að hann vilji koma einhverju á framfæri. „Mín skilaboð til bandarískra áhorfenda eru sú að þeir ættu að byrja að spila handbolta," segir Ólafur og bætir við: „Þetta er skemmtileg íþrótt."

Hægt er að nálgast grein Time hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×