Enski boltinn

Þriðja jafntefli Norwich í röð | Enn heldur West Ham hreinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Norwich og West Ham gerðu markalaust jafntefli í hádegisleiknum í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Heimamenn fengu betri færi í leiknum en Jussi Jääskeläinen markvörður gestanna stóð vaktina vel.

Carlton Cole byrjaði leikinn í framlínu West Ham og var nálægt því að skora í fyrri hálfleik en Russel Martin bjargaði skalla hans því sem næst á línu. Matthew Tayler fylgdi eftir en skot hans fór framhjá markinu.

Heimamenn voru heilt yfir sterkari aðilinn og í einni sókn liðsins í fyrri hálfleik þurfi Jääskeläinen að verja í þrígan. Markalaust í hálfleik.

Í síðari hálfleik komst Semeon Jackson næst því að skora fyrir heimamenn en Finninn varði þrumuskot hans utan teigs með tilþrifum. Varamaðurinn Harry Kane fékk svo dauðafæri undir lok leiksins en slakt skot hans fór beint á Jääskeläinen.

West Ham nældi í sitt fyrsta stig á útivelli á leiktíðinni og hefur nú sjö stig eftir fjórar umferðir. Liðið hefur auk þess haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum sínum. Carlton Cole fór meiddur af velli í síðari hálfleik en auk hans er Andy Carroll einnig frá vegna meiðsla. Áhyggjuefni fyrir Sam Allardyce.

Norwich, sem steinlá 5-0 í fyrstu umferð á útivelli gegn Fulham, gerði sitt þriðja jafntefli í röð. Liðið hefur því þrjú stig og þarf að bíða eitthvað lengur eftir sínum fyrsta sigri undir stjórn Chris Hughton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×