Enski boltinn

Owen eins og Eiður Smári - má enn finna sér félag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen á æfingu með Manchester United á síðustu leiktíð.
Michael Owen á æfingu með Manchester United á síðustu leiktíð. Mynd/AFP
Michael Owen fann sér ekki félag áður en félagsskiptaglugginn lokaði í gær en hann er þó ekki búinn að afskrifa það að spila í ensku úrvalsdeildinni fram að áramótum. Owen er með lausan samning og getur því samið við lið hvenær sem er.

Eiður Smári Guðjohnsen er í sömu aðstöðu og Owen og því verður við enn að bíða eftir fréttum af því hvar þessir kunnu kappar munu spila á þessu tímabili.

Owen er bara 32 ára gamall en hefur glímt við endalaus meiðsli síðustu tvö tímabil sín hjá Manchester United. Hann fékk ekki nýjan samning á Old Trafford og var í fyrstu orðaður við lið í Asíu.

Owen telur sig hinsvegar eiga eitthvað eftir í ensku úrvalsdeildinni og var síðustu daga orðaður við bæði Stoke og Everton. Hvernig það færi með stöðu hans í sögubókum Liverpool að fara fyrst í United og svo í Everton er síðan allt önnur saga.

Owen skrifaði um það inn á twitter-síðu sína að næstu dagar yrðu áhugaverðir og það verður því spennandi að vita hvar hann sem og Eiður Smári enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×