Innlent

Kvaddi lesgleraugun glöð í bragði

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Kona um fimmtugt kvaddi lesgleraugun sín í dag, glöð í bragði, og varð þar með fimmtándi Íslendingurinn til að gangast undir nýja lasermeðferð sem leiðréttir aldursbundna fjarsýni. Augnlæknir gerir ráð fyrir að mun fleiri eigi eftir að feta í þessi sömu fótspor.

Hildur Harðardóttir fór að finna fyrir svokallaðri ellifjarsýni fyrir um áratug og byrjaði þá að nota gleraugu þar sem linsur komu ekki til greina.

„Leiðinlegt að hafa gleraugu, erfitt, óþægilegt, þau trufla mig," lýsir Hildur. Og þá sérstaklega á hlaupum og í golfi.

„Þau hristast og það eru átök. Ég hef verið að spila gleraugnalaus, get ekki spilað með linsur, þannig að ég sé ekkert hvað ég er að gera," segir hún hlæjandi.

Fjorgjöf Hildar á væntanlega eftir að lækka innan tíðar þar sem hún gekkst síðdegis í dag undir svokallaða Presbymax-meðferð til að leiðrétta þessa aldursbundnu fjarsýni. Tæknin hefur ekki verið í boði hér á landi áður þrátt fyrir að hafa þekkst erlendis um nokkurra ára skeið.

„Þá er útbúinn lespunktur á hornhimnuna í aðgerðinni. Þá getur fólk bæði séð nálægt sér og langt frá sér. Heilinn lærir að horfa í gegnum mismunandi hluta hornhimnunnar. Þetta er mögnuð útfærsla á laser-aðgerðinni og hefur gefist mjög vel," segir Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Augljóss.

Meðferðin kostar 380 þúsund með árs eftirfylgni og er ætluð fólki á aldrinum 45-60 ára.

„Það eru kannski ca. 30 til 40% af þeim sem koma í forskoðun sem væru kandídatar í þessa aðgerð," útskýrir Jóhannes Kári.

„Þetta hefur verið kallaður hinn heilagur kaleikur augnlækninganna vegna þess að það hefur verið mikil eftirspurn, mikið af fólki sem hefur verið að spyrja hvort þetta sé ekki á leiðinni, hvort þetta sé ekki að koma, lausn á lesgleraugunum. Ég hugsa að þetta verði mjög vinsælt," segir Jóhannes Kári.

Hildur má svo búast við að undrin fari að gerast strax í kvöld en við fáum að vita allt um það á morgun þegar við hittum hana og Jóhannes Kára í fyrstu eftirskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×