Innlent

Þurfa nú lítt á íslenskum höfnum að halda

Gandí var á leið á Grænlandsmið til makrílveiða þegar íslenski sjávarútvegsráðherrann tók í taumana.
Gandí var á leið á Grænlandsmið til makrílveiða þegar íslenski sjávarútvegsráðherrann tók í taumana. fréttablaðið/óskar p. friðriksson
Jens K. Lyberth, aðstoðarsjávarútvegsráðherra Grænlands, segir að viðunandi niðurstaða hafi náðst í viðræðum sjávarútvegsráðherra Íslands og Grænlands í deilunni um uppskipun á makríl sem veiddur er í grænlenskri lögsögu.

„Eftir að deilan kom upp hafa ráðherrarnir talað saman og ég leyfi mér að segja að þessi samskipti séu öll á jákvæðum nótum,“ segir hann.

Hann minnir á að grænlenska skipið Erika hafi fengið leyfi til að landa nokkrum sinnum á Íslandi og segist viss um að slík leyfi verði gefin í framtíðinni í viðlíka tilfellum.

„Þar að auki getum við flutt afla á milli skipa á sjó svo við þurfum ekki svo mikið á því að halda að getað landað á Íslandi,“ bætir hann við en Grænlendingar hafa nú fengið skip, meðal annars frá Kína, til makrílveiðanna.

Jens Bigaard, útgerðarstjóri Royal Greenland, er ekki jafn sáttur.

„Það hefur ekkert breyst hjá okkur frá því að bannið var sett á,“ segir hann. „Við vorum búnir að fá íslensk skip til liðs við okkur en það er allt fyrir bí.“

Eins og greint hefur verið frá voru Brimnes og Guðmundur í Nesi, frá Brim, á makrílveiðum á grænlenskum miðum áður en Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra Íslands, tók í taumana.

Auk þessara skipa voru skipin Gandí og Arnar lögð af stað til að taka þátt í þessum veiðum.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×