Fótbolti

Beckham hættir í bandaríska boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham með synir hans Cruz Beckham, Romeo Beckham og Brooklyn Beckham.
David Beckham með synir hans Cruz Beckham, Romeo Beckham og Brooklyn Beckham. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Beckham og félagar í Los Angeles Galaxy eru annað árið í röð komnir í úrslitaleikinn í bandarísku atvinnumannadeildinni í fótbolta en Beckham tilkynnti í gær að úrslitaleikurinn yrði síðasti leikur hans fyrir Galaxy-liðið.

Los Angeles Galaxy mætir Houston Dynamo í úrslitaleiknum 1. desember næstkomandi og hefur titil að verja. Beckham kom til LA Galaxy frá Real Madrid árið 2007 og liðið hefur unnið Vesturdeildina þrisvar sinnum og svo MLS-titilinn í fyrra.

Beckham er orðinn 37 ára gamall en hann er ekki tilbúinn að leggja skóna á hilluna og nú keppast breskir fjölmiðlar við að giska á hvað verði síðasta félag Beckham á ferlinum.

Það er samt búist við að Beckham endi ferillinn í Ástralíu en fimm félög hafa áhuga á kappanum og bítast nú um að bjóða honum besta samninginn.

Beckham talaði um það að hann stefni á að koma að MLS-deildinni í framtíðinni og þá sem eigandi en hann hefur örugglega átt stóran þátt að auka áhuga á deildinni í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×