Innlent

Vill láta kanna vanvirkni samheitalyfja

Samheitalyfin virka ekki sem skyldi
Lyfjastofnun hafa borist tólf ábendingar í ár varðandi virkni þriggja samheitalyfja flogaveikislyfsins Keppra.Fréttablaðið/Valli
Samheitalyfin virka ekki sem skyldi Lyfjastofnun hafa borist tólf ábendingar í ár varðandi virkni þriggja samheitalyfja flogaveikislyfsins Keppra.Fréttablaðið/Valli
Brynhildur Arthúrsdóttir, formaður Landssambands áhugafólks um flogaveiki, er ósátt við að vanvirkni samheitalyfja flogaveikilyfsins Keppra hafi ekki komist í umræðuna fyrr en nú. Hún heyrði fólk fyrst tala um málið sín á milli í kringum síðustu áramót.

„Lyfjafræðingar apóteka urðu þess áskynja nokkuð fljótt að það væri eitthvað á ferðinni. En maður heyrði ekkert opinberlega fyrr en nú,“ segir hún. „Það er mín ósk að málið verði kannað. Það á ekki að æða áfram með eitthvað sem er ekki rétt, heldur eiga menn að afla upplýsinga og setja þær fram.“

Fréttablaðið greindi frá því í gær að þrjú samheitalyf við flogaveiki sem hafa verið á markaði síðustu mánuði hafi ekki nægilega virkni. Sjúklingar sem áður voru á flogaveikislyfinu Keppra og hafa ekki fengið flog svo árum skiptir eru sumir hverjir að fá lífshættuleg flog eftir að hafa skipt um lyf. Sjúkratryggingar hafa veitt læknum leyfi til að sækja um undanþágur frá samheitalyfjunum og hafa um 150 slíkar verið veittar síðan í mars.

„Ég hef verið að heyra af fólki sem hrynur bara allt í einu niður og hefur ekki hugmynd um af hverju,“ segir Brynhildur. „Svo ég er auðvitað alls ekki sátt með hvað þessi útskýring kemur seint fram í umræðuna.“

Lyfjastofnun hafa borist 12 ábendingar vegna lyfjanna það sem af er ári. Um er að ræða þrjú samheitalyf Keppra við flogaveiki; Zelta, Mataver og Levetiracetam Actavis.

Ekki náðist í Geir Gunnlaugsson landlækni í gær. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×