Fótbolti

Lagerbäck hefur aldrei unnið Noreg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck
Lars Lagerbäck
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, stýrði sænska landsliðinu í níu ár, fyrst með Tommy Söderberg frá 2000 til 2004 og svo einn frá 2004 til 2009. Svíar unnu 57 af 131 leik undir hans stjórn en tókst þó ekki að vinna Norðmenn í þau fjögur skipti sem þjóðirnar mættust á þessum tíma.

Svíar og Norðmenn gerðu tvisvar jafntefli þegar Lars Lagerbäck og Tommy Söderberg voru saman með liðið (1-1 árið 2000 og 0-0 árið 2002) og sænska liðið tapaði síðan báðum leikjum sínum á móti Norðmönnum eftir að Lars var tekinn einn við liðinu (0-3 árið 2004 og 2-3 árið 2005). Allir þessir leikir voru vináttuleikir og tveir þeirra voru spilaðir á hlutlausum velli.

Lagerbäck mætti Norðmönnum síðast í vináttulandsleik í Solna 8. júní 2005 og unnu Norðmenn þá 3-2 sigur. Svíar komust í 1-0 á 16. mínútu en Norðmenn lögðu gruninn að sigrinum með því að skora þrjú mörk á aðeins fimm mínútum eftir um klukkutímaleik. John Arne Riise, Thorstein Helstad og Steffen Iversen skoruðu mörk Noregs í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×