Fótbolti

Sölvi Geir: Á gott samstarf við Ragnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sölvi Geir í leik með FCK.
Sölvi Geir í leik með FCK. Nordic Photos / Getty Images
Sölvi Geir Ottesen og Ragnar Sigurðsson spila saman í vörn danska stórliðsins FCK og segir sá fyrrnefndi að það samstarf ætti að geta nýst landsliðinu vel.

Báðir eru í landsliðshópnum sem mætir Noregi í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvelli í kvöld. Lars Lagerbäck, þjálfari, vildi ekki gefa upp á blaðamannafundi í gær hvort hann hygðist nýta sér þetta samstarf þeirra í leiknum gegn Norðmönnum.

„Það er þó gott að eiga þann möguleika að nota leikmenn sem þekkja hvorn annan mjög vel, hvort sem þeir hafa spilað lengi saman í landsliðinu eða eru í sama félagsliði - sem er vitanlega enn betra. Því betur sem þeir þekkjast, þeim mun betur ná þeir saman. Það er því vissulega kostur."

Sölvi segir að þeir Ragnar séu duglegir að ræða saman og þróa samstarf þeirra. „Við þekkjum hvorn annan mjög vel og höfum spilað saman í mörgum leikjum. Við lendum í hinum ýmsu aðstæðum í leikjum sem við förum svo vandlega yfir," sagði Sölvi sem segist heill heilsu eftir að hafa meiðst fyrr í sumar.

„Ég varð fyrri því óhappi að bráka bein á æfingu. Ég spilaði reyndar tvo leiki eftir það en var svo ráðlagt að hvíla löppina. Ég er þó kominn yfir það og þetta mun ekki há mér. Ég er í góðu standi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×