Enski boltinn

Rooney: Þetta voru mín stærstu mistök

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney sér mikið eftir því að hafa farið fram á félagaskipti frá Manchester United fyrir tveimur árum síðan.

Rooney fór fram á þetta haustið 2010 og sagði ástæðuna vera að United hefði ekki lengur getu til að fá bestu leikmenn heims til félagsins. Þá sagði hann einnig að metnaður félagsins samræmdist ekki hans eigin metnaði.

Tveimur dögum síðar var hins vegar allt breytt og Rooney skrifaði undir nýjan fimm ára samning við United.

Rooney mun senn gefa út bók um hans fyrsta áratug í ensku úrvalsdeildinni og er nú verið að birta kafla úr henni í enska dagblaðinu Daily Mirror.

Hann segir að ökklameiðsli hafi gert það að verkum að hann hafi orðið óánægður með lífið hjá United. „Þá gerði ég stærstu mistök knattspyrnuferils míns," segir í bókinni.

„Þetta verður mikið mál. Menn innan félagsins ræða hvernig best sé að leysa úr ástandinu og utan þess er fólk ófeimið við að láta skoðun sína í ljós. En staðreyndin er sú að enginn veit í raun hvað sé í gangi í mínu lífi."

„Sá eini sem veit hvað er í gangi í mínu lífi er ég sjálfur. Og ég veit samt ekki sjálfur upp á hár hvað það er sem ég vil."

Rooney segir að Alex Ferguson, stjóri United, hafi rætt við sig og sett hlutina í ákveðið samhengi.

„Hann sagði að grasið væri ekki alltaf grænna hinum megin og hafði rétt fyrir sér. Ég vissi að ég hafði rangt fyrir mér. United vill það sama og ég - ná árangri, vinna bikara og vera besta lið heims."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×