Fótbolti

Rooney og Welbeck með tvö gegn San Maríno | England í toppsætið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu í kvöld.
Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Englendingar tylltu sér í efsta sæti H-riðils í undankeppni HM 2014 er liðið lagði San Marínó 5-0 á þéttsettnum Wembley-leikvanginum í kvöld.

Heimamenn þurftu að bíða töluvert lengur eftir fyrsta markinu en reiknað hafði verið með. Wayne Rooney, sem bar fyrirliðabandið í kvöld, kom þeim á bragðið með marki úr vítaspyrnu á 35. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar bætti Danny Welbeck, félagi hans hjá Manchester United, við marki eftir undirbúning Aaron Lennon. Staða heimamanna því orðin þægileg þegar flautað var til hálfleiks.

Þeir tæplega 85 þúsund áhorfendur sem mættu á leikinn þurftu aftur að bíða nokkuð lengi eftir fyrsta markinu í síðari hálfleik. Rooney skoraði það og um leið sitt annað mark á 70. mínútu. Líkt og í fyrri hálfleiknum bætti Welbeck við marki aðeins tveimur mínútum síðar, nú eftir undirbúning Tom Cleverley, og staðan 4-0.

Alex Oxlade-Chamberlain bætti við fimmta og fallegasta marki leiksins þegar hann opnaði markareikning sinn fyrir enska landsliðið með marki á 77. mínútu.

Eftir sigurinn eru Englendingar á toppi riðilsins með 7 stig en hafa leikið leik meira en Svartfellingar og Pólverjar sem hafa 4 stig. Einn annar leikur fór fram í riðlinum í kvöld en þá gerðu Moldóvar og Úkraínumenn markalaust jafntefli í Moldavíu.

Á þriðjudaginn sækja Englendingar Pólverja heim í Varsjá, Úkraína tekur á móti Svartfjallalandi og San Marínó fær Moldavíu í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×