Fótbolti

Pedro skoraði þrjú og lagði upp það fjórða í sigri Spánverja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pedro setur boltann í netið í Minsk í kvöld.
Pedro setur boltann í netið í Minsk í kvöld. Nordicphotos/Getty
Heims- og Evrópumeistarar Spánverja unnu 4-0 útisigur á Hvíta-Rússlandi í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld. Pedro, leikmaður Barcelona, átti ógleymanlegt kvöld en hann skoraði sína fyrstu þrennu í meistaraflokki í knattspyrnu.

Barcelona og Real Madrid áttu níu fulltrúa af þeim ellefu sem hófu leikinn gegn Hvít-Rússum í Minsk í kvöld. David Silva og Santi Cazrola, liðsmenn Man. City og Arsenal, voru hinir tveir en stjarna Pedro Rodriguez skein þó skærast allra.

Pedro lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Jordi Alba, samherja sinn hjá Barcelona, á 12. mínútu. Kantmaðurinn frá Tenerife bætti svo sjálfur við marki á 21. mínútu og staða gestanna orðin góð.

Pedro bætti við tveimur mörkum á fjórum mínútum um miðjan síðari hálfleikinn og tryggði Spánverjum 4-0 sigur. Frábær kvöld hjá Pedro en þetta er í fyrsta skipti sem hann skorar þrennu í meistaraflokki hvort sem er með félagsliði eða þjóð sinni.

Spánverjar eru á toppi I-riðils ásamt Frökkum að loknum tveimur leikjum. Báðar þjóðir hafa sex stig en þær mætast á Vicente Calderón í Madríd á þriðjudagskvöldið.

Georgíumenn hafa fjögur stig í þriðja sæti en hafa leikið þrjá leiki. Georgía gerði 1-1 jafntefli gegn Finnum í Helsinki í hinum leik riðilsins í kvöld.

Öll úrslit kvöldsins í undankeppni HM má sjá í Miðstöð boltavaktarinnar, sjá hér.


Tengdar fréttir

Þjóðverjar slátruðu Írum | Zlatan bjargaði Svíum gegn Færeyingum

Færeyingar voru ekki langt frá því að ná óvæntum úrslitum gegn Svíum í undankeppni HM 2014. Þeir komust yfir í leiknum en urðu að lokum að sætta sig við naumt tap. Þá sofa Írar ekki vel í nótt eftir 6-1 tap á heimavelli gegn sjóðandi heitum Þjóðverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×