Fótbolti

Zlatan sakaður um að hafa stigið á höfuð andstæðings

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjámynd
Dejan Lovren, leikmaður Lyon, fékk að finna fyrir því í samskiptum við Zlatan Ibrahimovic, leikmann PSG, í stórslag helgarinnar í franska fótboltanum.

PSG vann 1-0 sigur en mesta athygli vakti barátta Zlatan við varnarmann Lyon. Lovren féll til jarðar eftir baráttu við Zlatan sem dæmdur var brotlegur. Svíinn hljóp þó á eftir boltanum og á myndbandi sést hann stíga á varnarmanninn.

„Allir hafa sagt við mig að um viljaverk hafi verið að ræða. Hvort sem er þá er ég með dúndrandi hausverk. Þetta er alvarlegt mál en það kemur í hlut knattspyrnusambandsins að vinna vinnuna sína," sagði Lovren í viðtali eftir leikinn.

Jean-Michel Aulas, forseti Lyon, var viss um að Svínn hefði ætlað að meiða Lovren.

„Hann gerði þetta viljandi, ég er viss um það. Ég kann ekki við svona framkomu," sagði Aulas.

Dómari leiksins taldi að um óviljaverk hefði verið að ræða enda fór ekkert spjald á loft. Atvikið má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×