Enski boltinn

Sir Alex Ferguson gerir lítið úr Newcastle

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sir Alex Ferguson og Alan Pardew.
Sir Alex Ferguson og Alan Pardew. Nordicphotos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, brást illa við gagnrýni Alan Pardew, knattspyrnustjóra Newcastle, á blaðamannafundi í dag.

Enska knattspyrnusambandið tilkynnti í gær að Ferguson fengi enga refsingu fyrir hávær mótmæli sín við Mike Dean dómara í viðureign United gegn Newcastle á annan dag jóla.

Ástæðan var sú að Dean minntist ekki á atvikið í skýrslu sinni. Pardew sagði að hegðun Ferguson hefði verðskuldað refsingu og taldi að Dean dómari væri líkast til svekktur að hafa ekki sent Ferguson upp í stúku.

„Alan Pardew hefur gagnrýnt mig opinberlega. Hann er manna verstur þegar kemur að því að tuða í dómurunum. Hann ýtir þeim og slær því upp í grín," sagði Ferguson og hélt áfram.

„Að hann vogi sér að gagnrýna mig er ótrúlegt. Hann gleymir því líka hvernig ég aðstoðaði hann á sínum tíma," sagði Ferguson.

Pardew fékk tveggja leikja bann og var sektaður um fjórar milljónir króna fyrir að ýta við aðstoðardómara fyrr á leiktíðinni. Atvikið átti sér stað í 2-1 sigri Newcastle á Tottenham í ágúst þegar Pardew taldi boltann hafa farið út fyrir hliðarlínuna öfugt við skoðun aðstoðardómarans.

„Ég var ákveðinn en fór ekki yfir strikið. Fjölmiðlar hafa farið á flug. Eina manneskjan sem ekki hefur rætt við er Barack Obama af því hann er upptekinn," sagði Ferguson og skaut föstum skotum að Alan Pardew og Newcastle.

„Því miður er ég stjóri frægasta félag í heiminum en ekki Newcastle, smáliðs í norðaustur Englandi," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×