Enski boltinn

Wenger um Ferguson: Það eiga að gilda sömu reglur um alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson.
Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er á því að allir knattspyrnustjórar eiga að fá refsingu gangi þeir of langt í aðfinnslum sínum við dómara. Það hefur vakið mikla athygli að Sir Alex Ferguson komst upp með mikil mótlæti á hliðarlínunni í 4-3 sigri Manchester United á Newcastle um síðustu helgi.

Sir Alex Ferguson öskraði á bæði fjórða dómarann og annan aðstoðardómarann í hálfleik eftir að sjálfsmark Jonny Evans var dæmt gilt en umræddur aðstoðardómari hafði áður veifað rangstöðu. Mike Dean, dómari leiksins, ákvað að dæma markið gilt og Sir Alex var allt annað en sáttur með það.

„Við göngum stundum of langt á hliðarlínunni en þegar það gerist þá verða menn að fá refsingu. Það á ekki að skipta máli hvort að það sé ég, Sir Alex Ferguson eða einhver annar stjóri. Reglurnar eiga ekki að fara eftir persónum því það eiga að gilda sömu reglur um alla," sagði Arsene Wenger.

„Við elskum allir ensku úrvalsdeildina og fólk er að fylgjast með henni út um allan heim. Við viljum líka að hún njóti virðingar og því mega menn ekki komast upp með að hafa sér á ósæmandi hátt," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×