Fótbolti

Alfreð skoraði í tapi Heerenveen

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði mark Heerenveen í 3-1 tapi á útivelli gegn botnliði Willem II í efstu deild hollensku knattspyrnunnar í kvöld.

Alfreð jafnaði metin fyrir gestina á 70. mínútu en tvö mörk heimamanna á síðasta stundarfjórðungnum tryggði liðinu sigur.

„Það skiptir ekki máli hvað ég skora mörg mörk ef við töpum. Ég spila fyrir liðið og þegar við töpum telja mörkin ekki jafnmikið," sagði Alfreð í viðtali við stuðningsmannasíðu félagsins eftir leikinn.

Viðtalið í heild sinni, sem er á ensku, má sjá með því að smella hér.

Alfreð hefur skorað ellefu mörk í deildinni í vetur. Í viðtalinu segir hann að viðhorf leikmanna þurfi að breytast en lærisveinar Marco van Basten sitja í 13. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 15 leiki.

Mark Alfreðs má sjá eftir rúmar fjórar mínútur í eftirfarandi myndskeiði, smellið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×