Erlent

Monty Python í málaferlum vegna söngleiksins Spamalot

Framleiðandi myndarinnar The Holy Grail á nú í málaferlum við Monty Python hópinn vegna höfundarlaunagreiðslna fyrir söngleikinn Spamalot sem byggður er á myndinni.

Réttarhöldin í málinu hefjast fyrir dómstóli í London nú eftir helgina. Þrír úr Monty Python hópnum munu bera vitni í málinu en það eru þeir Eric Idle, Michael Palin og Terry Jones. Hinsvegar munu John Cleese og Terry Gilliam ekki mæta í réttarsalinn þar sem þeir eru staddir utan Bretlands þessa daganna.

Framleiðandinn sem hér um ræðir, Mark Forstater segir að hann hafi verið snuðaður um höfundarlaun fyrir söngleikinn Spamalot allt frá því að söngleikurinn var fyrst frumsýndur á Broadway árið 2005.

Monty Python hópurinn hafi samið við hann um höfundarlaun fyrir allt efni sem byggði á myndinni The Holy Grail en ekki staðið við þann samning. Spamalot er byggður á myndinni.

Monty Python hópurinn viðurkennir að Forstater eigi rétt á höfundarlaunum en deilt er um hve há þau eigi að vera.

Það var Eric Idle sem skrifaði handritið að Spamalot en söngleikurinn hefur notið mikilla vinsælda í gegnum árin. Á fyrstu sýningarviku hans námu tekjurnar af söngleiknum einni milljón dollara eða um 126 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×