Fótbolti

Tap hjá Jóhanni Berg og AZ

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson lék fyrstu 68 mínúturnar þegar AZ Alkmaar tapaði 2-1 á útivelli fyrir Utrecht. Vandræði AZ halda áfram en liðið er aðeins með tvö stig í fimm síðustu leikjum sínum.

Jóhann Berg hóf leikinn vinstra megin í þriggja manna sóknarlínu AZ og fór af leikvelli í stöðunni 1-1.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Leon de Kogel á 48. mínútu fyrir Utrecht. Tveimur mínútum síðar jafnaði Etienne Reijnen metin fyrir AZ.

Það var Zambíumaðurinn Jacob Mulenga sem tryggði Utrecht stigin þrjú á 83. mínútu.

Utrecht lyfti sér þar með upp fyrir NEC í sjötta sæti deildarinnar en þetta var fyrsti sigur liðsins í fjórum leikjum.

AZ er sem fyrr í 12. sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan fall svæðið en liðið hefur ekki unnið í fimm leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×