Fótbolti

Redknapp í viðræður við Úkraínumenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn knattspyrnusambands Úkraínu hafa tilkynnt að sambandið ætli sér að fara í viðræður við Harry Redknapp um starf landsliðsþjálfara þar í landi.

Oleg Blokhin hætti sem landsliðsþjálfari í september síðastliðnum en í síðustu viku var Andriy Shevchenko boðið starfið. Hann hafnaði tilboðinu.

Redknapp er atvinnulaus sem stendur eftir að hann var rekinn frá Tottenham í sumar. Hann var sterklega orðaður við enska landsliðsþjálfarastarfið en Roy Hodgson var svo ráðinn í það.

Úkraína var einn gestgjafa á EM í sumar en hefur gengið illa í upphafi undankeppni HM 2014. Þar er liðið í fimmta sæti í sínum riðli með tvö stig eftir þrjá fyrstu leikina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×