Fótbolti

Guardiola tekur ekki við landsliði Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Nordic Photos / Getty Images
Pep Guardiola hefur síðustu daga verið orðaður við landsliðsþjálfarstarfið í Brasilíu en forráðamenn knattspyrnusambandsins vilja helst ráða heimamann.

Mano Menezes var rekinn úr starfinu á föstudagskvöldið en Brasilía verður gestgjafi á HM 2014.

Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, Jose Marin, segir afar ólíklegt að útlendingur verði ráðinn í starfið.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Guardiola en Brasilía hefur fimm sinnum orðið heimsmeistari með brasilískum þjálfurum," sagði Marin.

„Ég hef ekki rætt við neina þjálfara enn og ætla að bíða eftir að tímabilið klárist. Kannski að ákvörðun verði tekin í janúar og mun ég þá tilkynna okkar val."

Andres Sanchez, einn forráðamanna landsliðsins, telur þó að Marin sé þegar búinn að ganga frá ráðningu Luiz Felipe Scolari á bak við tjöldin.

„Felipao hefur samþykkt kjör og kaup. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum," er haft eftir Sanchez.

Scolari þjálfaði brasilíska landsliðið frá 2001 til 2002, áður en hann tók við portúgalska landsliðinu sem hann stírði í fimm ár. Hann var einnig stjóri Chelsea í nokkra mánuði en er nú aftur kominn til heimalandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×