Erlent

Ekki lögbrot að loka á WikiLeaks

BBI skrifar
Julian Assange er stofnandi Wikileaks.
Julian Assange er stofnandi Wikileaks.
Stærstu kortafyrirtæki heims brutu ekki samkeppnislög Evrópusambandsins þegar þau lokuðu á greiðslugátt sem notuð var til að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks. Þetta er niðurstaða Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Fyrirtækið Datacell, sem tekur við fjárframlögum til WikiLeaks, kvartaði til Framkvæmdastjórnarinnar vegna lokunarinnar. Miðað við fyrirliggjandi gögn þótti lokunin ekki fela í sér lögbrot.

Niðurstaða Framkvæmdastjórnarinnar stangast á við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdi í sumar að íslenska kortafyrirtækinu Valitor hefði verið óheimilt að loka á greiðslugáttir til WikiLeaks. Datacell hafði stefnt Valitor vegna lokunarinnar.

Kortafyrirtækin lokuðu á greiðslugáttir til síðunnar eftir að WikiLeaks birti fjölda pósta úr sendiráðum Bandaríkjanna víðsvegar um heiminn. Valitor gerði slíkt hið sama en það var dæmt ólöglegt í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Nú lítur út fyrir að Evrópusambandið muni ekki taka undir þá niðurstöðu, en talsmaður framkvæmdastjórnar ESB sagði í dag að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar hefðu fyrirtækin ekki brotið samkeppnislög. Hann tók hins vegar fram að framkvæmdastjórnin myndi fara yfir frekari upplýsingar frá Datacell áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Þetta kemur fram hjá fréttaveitunni Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×