Fótbolti

Rodgers hrósar aðlögunarhæfni Gerrard

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er á sínu fjórtánda ári hjá félaginu en hefur sjaldan þurft að fara í gegnum jafnmiklar breytingar á leikstíl liðsins og þegar Brendan Rodgers tók við stjórnartaumnum í haust.

Brendan Rodgers er samt ánægður með fyrirliðann sinn og hefur hrósað hinum 32 ára gamla Gerrard fyrir aðlögunarhæfnina enda hans leikstíll allt annar en hjá fyrirrennurunum Rafael Benitez, Kenny Dalglish og Roy Hodgson.

„Í gegnum árinu hefur Steven alltaf verið maðurinn sem hefur gert útslagið í leikjum liðsins. Hann hefur ekki náð að skora mörkin á þessu tímabili en hefur samt verið að skila sínu," sagði Brendan Rodgers um Steven Gerrard á blaðamannafundi.

„Hann hefur þurft að taka á sig enn stærra leiðtogahlutverk vegna þess að liðið er mjög ungt. Hann hefur því enn meiri ábyrgð í því að passa upp á alla þessa ungu stráka," sagði Rodgers.

„Ég vil bara að hann verði sá leikmaður sem hann er. Það er gott að hann vilji brjótast í gegnum varnir andstæðinganna. Okkar leikur snýst ekki bara um umráð þó við leggjum mikla áherslu á að halda boltanum," sagði Rodgers.

„Þetta snýst um tempó og hraða í okkar leik. Hann er frábær í því hvernig hann sendir boltann og heldur uppi hraða í okkar leik," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×