Fótbolti

Scolari líklegur til að stýra Brasilíu á HM 2014

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Luiz Felipe Scolari verður næsti þjálfari landsliðs Brasilíu
Luiz Felipe Scolari verður næsti þjálfari landsliðs Brasilíu Nordic Photos / Getty Images
Luiz Felipe Scolari, verður að öllum líkindum næsti þjálfari landsliðs Brasilíu. Fjölmiðlar í Brasilíu telja miklar líkur á því að hann taki við liðinu. Scolari stýrði liðinu til sigurs á HM árið 2002 og hann var þjálfari Portúgala sem komst í undanúrslit á EM 2004 og HM árið 2006. Mano Menezes, sem var þjálfari landsliðs Brasilíu, var rekinn á dögunum og er búist við því að Scolari verði kynntur til sögunnar á morgun – föstudag.

Brasilíumenn ætla sér stóra hluti á HM þar sem þeir verða gestgjafar árið 2014 en Brasilíumenn hafa fimm sinnum sigrað á HM í knattspyrnu karla.

Carlos Alberto Parreira, sem gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum árið 1994, verður tæknilegur ráðgjafi Scolari.

Þegar Scolari tók við landsliði Brasilíu árið 2001 snéri hann hlutunum við á aðeins einu ári og kom liðið virkilega á óvart með því að standa uppi sem sigurvegari á HM 2002 sem fram fór í Japan – og Suður-Kóreu.

Scolari er 64 ára gamall og en hann var um tíma knattspyrnustjóri Chelsea, en hann starfaði síðast hjá Palmeiras í heimalandinu – án þess að ná árangri með það lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×