Fótbolti

Dýrmætt stig hjá Eiði og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson voru báðir í byrjunarliði Cercle Brugge sem náði 2-2 jafntefli við Gent á heimavelli í belgísku úrvalsdeildinni í dag.

Arnari var skipt af velli í hálfleik en Eiður spilaði allan leikinn. Gent komst 2-0 yfir í leiknum en Cercle Brugge skoraði tvívegis á síðasta hálftíma leiksins.

Cercle Brugge er þó enn í botnsæti deildarinnar en er nú með átta stig, þremur stigum á eftir næsta liði.

Zulte-Waregem, lið Ólafs Inga Skúlasonar, missteig sig í toppbaráttunni í dag en liðið gerði 1-1 jafntefli við Mechelen. Ólafur Ingi var ónotaður varamaður í dag.

Liðið er þó enn á toppi deildarinnar en gæti misst sætið til Anderlecht á morgun en þá mætir síðarnefnda liðið Club Brugge.

Þá gerði Leuven markalaust jafntefli við Kortrijk. Stefán Gíslason lék allan leikinn í liði Leuven og fékk áminningu í leiknum. Leuven er í sjötta sæti deildarinnar.

Í Hollandi gerði AZ Alkmaar 2-2 jafntefli við Den Haag. Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn í liði AZ sem er í þrettánda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×