Fótbolti

Hertar fjárhagsreglur í ensku úrvalsdeildinni?

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Leikmenn Manchester City fagna meistartitlinum s.l. vor.
Leikmenn Manchester City fagna meistartitlinum s.l. vor. Nordic Photos / Getty Images
Dave Whelan, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Wigan, telur að forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar muni samþykkja tillögu þess efnis að liðin geti ekki eytt umfram þær tekjur sem liðin afla sér á hverju tímabili. Kosið verður um tillögu þess efnis í dag og ef tillagan verður samþykkt mun nýja reglan taka gildi strax á næstu leiktíð.

Í stuttu máli gengur tillagan út á það að liðin geti ekki eytt peningum í reksturinn umfram þær tekjur sem liðin afla sér. Reglugerðin kallast „break-even rule".

Whelan segir í viðtali við BBC: „Ég held að félögin vilji fara þessa leið – ég trúi því," en forráðamenn Fulham eru þeir einu sem hafa lýst yfir andstöðu við þessa tillögu.

Englandsmeistaralið Manchester City tapaði um 197 milljónum punda á síðast rekstrarári eða sem nemur 40 milljörðum kr. Og félagið gæti ekki haldið áfram á sömu braut ef nýja reglan verður samþykkt í dag. Samtals var taprekstur á liðunum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð 361 millj. punda eða sem nemur 74 milljörðum kr.

Samkvæmt úttekt BBC var hagnaður Manchester United um 4,8 milljarðar kr. (23.3 millj. pund), Chelsea hagnaðist um 290 milljónir kr. (1,4 millj. pund), Arsenal hagnaðist um 7,4 milljarða kr. (36,6 millj. pund), Tottenham hagnaðist um 6,7 milljarða kr. (32,2 millj. pund), Liverpool tapaði 10 milljörðum kr. (49,4 millj. pund), Newcastle tapaði 800 milljónum kr. ( 3,9 millj. pund), og Wigan tapaði 1,4 milljörðum kr. (7,2 millj. pund).

Eins og áður segir munu forsvarsmenn úrvalsdeildarliðanna funda í dag. Alls eru liðin 20 og þurfa 14 þeirra að samþykkja tillöguna til þess að hún nái fram að ganga. Whelan telur að einhverjar undanþágur verði samt sem áður leyfðar og hann vill að stig verði tekin af liðum sem uppfylla ekki kröfurnar – og að þau lið fái ekki að taka þátt í Meistaradeild Evrópu eða UEFA.

Enska úrvalsdeildin fékk um 70% hækkun þegar samið var á ný um sýningarréttinn frá deildinni – og fá liðin rúmlega 615 milljarða ísl. kr. í sinn hlut á samningstímanum. Eigendurnir vilja ekki að þessi hækkun verði til þess að laun leikmanna hækki gríðarlega í kjölfarið.

Ný reglugerð sem snýr að fjárhag lið í Evrópu verður tekin í notkun á næsta tímabili hjá UEFA. Þar fá liðin þrjú ár í aðlögun. Og nái liðin ekki að snúa taprekstrinum í hagnað á þremur árum missa þau keppnisrétt sinn í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×