Enski boltinn

Ferguson: Ekki fræðilegur möguleiki að kaupa Ronaldo

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ronaldo og Ferguson skömmu áður en sá fyrrnefndi fluttist búferlum til Spánar.
Ronaldo og Ferguson skömmu áður en sá fyrrnefndi fluttist búferlum til Spánar. Nordicphotos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Cristiano Ronaldo væri velkominn aftur í herbúðir félagsins. Skotinn segir þó engan möguleika á að kaupa Portúgalann snjalla.

Ronaldo var seldur frá United til Real Madrid á 80 milljónir punda árið 2009 sem gerði Portúgalann að dýrasta knattspyrnumanni sögunnar. Ljóst er að knattspyrnumaðurinn hefur ekki lækkað í verði síðan þá.

„Upphæðirnar eru stjarnfræðilegar í dag. Hvert heldurðu að virði hans sé? Það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir okkur á að kaupa hann," sagði Ferguson að því er ITV sjónvarpsstöðin greinir frá.

Ferguson telur að mögulega hafi rússnesk félög tök á að greiða þá upphæð sem til þurfi en efast um að Ronaldo flytji sig frá Madrid.

„Heldurðu að hann færi til Rússland? Hann kvartaði yfir veðrinu hérna. Hvað heldurðu að honum fyndist um veturinn í Rússlandi," sagði Ferguson og minnti á að það hefði verið draumur Ronaldo frá unga aldri að spila fyrir Real Madrid.

Ronaldo snýr aftur til Manchester í vikunni þegar Real Madrid sækir Englandsmeistara Manchester City heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×