Fótbolti

Veigar Páll yfirgefur Stabæk og er á heimleið til Íslands

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Veigar Páll í leik með íslenska landsliðinu.
Veigar Páll í leik með íslenska landsliðinu. Vilhelm
Veigar Páll Gunnarsson mun leika fótbolta á Íslandi á næsta keppnistímabil en hinn 32 ára gamli framherji hefur ákveðið að snúa heim úr atvinnumennsku. Veigar staðfestir þetta í samtali við TV2 í Noregi. „Þetta var mjög erfið ákvörðun en ég hef ákveðið að flytja heim til Íslands," sagði Veigar en hann á eitt ár eftir að samningi sínum við Stabæk sem endaði í neðsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Veigar hóf ferilinn með Stabæk árið 2004 en hann lék um 170 leiki í efstu deild fyrir félagið. Hann kom til Stabæk á miðju tímabili eftir að hafa verið í herbúðum Vålerenga í Osló um stund.

Að sögn Veigars eru engin félög á Íslandi sem hafa komið með formleg tilboð. En hann ætlar sér að leika fótbolta áfram. „Ég er ekki hættur, og ég vonast til þess að geta spilað fótbolta fyrir eitthvað lið á Íslandi," sagði Veigar m.a. í viðtalinu.

Veigar er eins og áður segir 32 ára gamall. Hann hóf ferilinn hjá Stjörnunni þar sem hann lék fram til ársins 2000. Þaðan lá leiðin til Noregs þar sem hann lék með Strömsgodset 2001. Hann fór til KR og var þar 2002-2003. Stabæk fékk hann í sínar raðir árið 2004, hann var seldur til franska liðsins Nancy árið 2009. Veigar var ekki lengi í Frakklandi og fór aftur til Stabæk og lék þar 2009-2011. Vålerenga keypti hann árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×