Innlent

Magnaðar myndir: Fólk í stórhættu í ofsaveðri

Valur Grettisson skrifar
Myndirnar tók Anton Brink. Vísir hvetur að sjálfsögðu fólk til þess að fara varlega í veðrinu.
Myndirnar tók Anton Brink. Vísir hvetur að sjálfsögðu fólk til þess að fara varlega í veðrinu.

Ljósmyndari Fréttablaðsins, Anton Brink, fór á stúfana í morgun og náði þessum myndum af óveðrinu. Vindurinn er gríðarlegur við Höfðatorg og má þarna finna myndir af fólki sem rúllar hreinlega eftir götunni.

Kona féll við og má sjá hugulsama vegfarendur koma henni til aðstoðar en þeir mynda meðal annars skjól með bifreiðum sínum eins og sjá má á myndunum. 100 björgunarsveitarmenn eru að störfum á höfuðborgarsvæðinu og er verið að kalla út fleiri. Þakplötur hafa fokið víða og aðrir lauslegir munir.

Yfir fimmtán einstaklingar hafa leitað á slysadeild fyrir klukkan ellefu í morgun, samkvæmt upplýsingum frá slysadeild Landspítalans. Deildarstjóri á deildinni vill biðla til fólks að fara varlega í óveðrinu sem gengur nú yfir.

„Þetta er fullorðið fólk sem fýkur bara og dettur. Við erum að rannsaka sjúklingana en það er grunur um beinbrot og hnjask. Við viljum vara fólk við að vera úti í þessu veðri, og ef það gerir það að fara mjög varlega," sagði Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri á slysadeildinni í viðtali við Vísi fyrr í morgun. „Það eru ekkert endilega hálkublettir, það er bara svo rosalega hvasst," bætti hún við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×