Fótbolti

Adriano fær ekki nýjan samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adriano á æfingu með Flamengo í síðasta mánuði.
Adriano á æfingu með Flamengo í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnuferill Brasilíumannsins Adriano virðist nú kominn á endastöð, í eitt skipti fyrir öll.

Hann hefur verið rekinn frá tveimur félögum á jafn mörgum árum - fyrst frá Roma á Ítalíu og svo Corinthians í heimalandinu fyrir átta mánuðum síðan.

Flamengo ákvað þá að taka hinn þrítuga Adriano upp á sína arma en hann hefur ekki spilað einn einasta leik með liðinu síðan þá.

Adriano tilkynnti svo á mánudag að hann myndi ekki spila knattspyrnu fyrr en á næsta ári en síðan þá hafa forráðamenn Flamengo tilkynnt að hann muni ekki fá nýjan samning þegar núverandi samningur rennur út í lok þessa árs.

„Hann er kominn á endastöð sem atvinnumaður í knattspyrnu," sagði Zinho, yfirmaður knattspyrnumála hjá Flamengo. „Við munum þó aldrei gefast upp á að aðstoða hann í sínu einkalífi."

Adriano hefur lengi háð baráttu við þunglyndi og bakkus. Hann var boðaður á fund með forseta Flamengo í síðustu viku en mætti ekki. Hann hefur skrópað á mörgum æfingum síðan hann gekk til liðs við félagið.

Brasilískir fjölmiðlar segja að hann hafi verið tíður gestur á næturklúbbum og skemmtistöðum að undanförnu.

Hann var á sínum tíma einn besti framherji Evrópu þegar hann var upp á sitt besta með Inter á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×