Fótbolti

Ronaldo þreyttur á samanburðinum við Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo telur að hann eigi jafnan möguleika í baráttunni um leikmann ársins hjá FIFA en er orðinn þreyttur á stöðugum samanburði við Argentínumanninn Lionel Messi.

Ronaldo leikur með Real Madrid en Messi er hjá erkifjendunum í Barcelona. Sá síðarnefndi hefur verið valinn leikmaður ársins hjá FIFA síðustu þrjú árin en Ronaldo var útnefndur árið 2008.

Báðir eru vitanlega tilnefndir í ár og er ekki búist við öðru en að fjölmiðlar muni áfram velta sér upp úr samanburði þeirra tveggja á næstu vikum og mánuðum.

„Fjölmiðlar velta þessu upp í sífellu, í þeim tilgangi að selja fleiri blöð eða auka áhorfið," sagði Ronaldo í samtali við France Football.

„Sannleikurinn er sá að ég er orðinn nokkuð þreyttur á því. Ég ber ekki sjálfan mig við aðra. Messi og ég erum ólíkir en ég ber mikla virðingu fyrir honum."

„Messi getur unnið Gullboltann en Xavi og Iniesta líka. Það má heldur ekki gleyma Drogba og Falcao."

Kjörinu verður lýst þann 7. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×