Fótbolti

Hangeland tryggði Norðmönnum stig gegn Sviss | Slóvenar lögðu Kýpverja

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hangeland (í hvítri treyju) tryggir Norðmönnum stigið í Bern.
Hangeland (í hvítri treyju) tryggir Norðmönnum stigið í Bern. Nordicphotos/Getty
Brede Hangeland var hetja Norðmanna sem gerðu 1-1 jafntefli gegn Svisslendingum í Bern í kvöld. Þá unnu Slóvenar 2-1 sigur á Kýpur en þjóðirnar fjórar eru í C-riðli ásamt Íslendingum og Albönum.

Svisslendingar höfðu sex stig að loknum tveimur leikjum þegar liðið tók á móti Norðmönnum í kvöld. Eftir fjörugan leik náði varamaðurinn Mario Gavranovic forystunni fyrir heimamenn með marki á 79. mínútu eftir hornspyrnu Sherdan Shaqiri.

Forysta heimamanna varði aðeins í tvær mínútur. Þá skokkaði miðvörðurinn stæðilegi Brede Hangeland inn á vítateig og skallaði hornspyrnu John Arne Riise í netið.

Gestirnir frá Noregi sóttu stíft það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að koma boltanum framhjá Benaglio í marki heimamanna.

Í Maribor unnu heimamenn í Slóveníu 2-1 sigur á Kýpverjum. Tim Matavz skoraði bæði mörk Slóvena en varamaðurinn Stathis Aloneftis minnkaði muninn fyrir gestina á 83. mínútu.

Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í leiknum og var sigur þeirra verðskuldaður. Þetta voru fyrstu stig Slóvena en liðið hafði áður tapað gegn Sviss og Noregi.

Svisslendingar eru á toppi riðilsins með sjö stig en Íslendingar í öðru sæti með sex stig. Norðmenn hafa fjögur stig en Slóvenar, Albanir og Kýpverjar þrjú stig.

Íslendingar taka á móti Sviss á Laugardalsvelli á þriðjudagskvöldið í toppslag riðilsins.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Albanía - Ísland 1-2 | Gylfi skoraði sigurmarkið

Ísland vann sögulegan sigur, 1-2, á Albaníu við fáranlegar aðstæður í Tírana í kvöld. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á Balkanskaganum. Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigurinn með algjöru gullmarki. Seinka varð seinni hálfleik vegna þrumuveðurs og völlurinn var á floti allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×