Fótbolti

Ranger fékk skilorðsbundinn dóm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nile Ranger.
Nile Ranger. Nordic Photos / Getty Images
Nile Ranger, leikmaður Newcastle, fékk í dag skilorðsbundinn dóm fyrir að ráðast á tvo lögreglumenn í ágúst síðastliðnum.

Ranger var úti að skemmta sér og var upphaflega einnig kærður fyrir að ráðast á tvo menn þetta sama kvöld. Þær voru hins vegar látnar niður falla þegar í ljós kom að þeir hefðu beitt hann kynþáttaníði.

Hópur hvítra manna kom að máli við Ranger þetta kvöld og hafði niðrandi ummæli um hann. Ranger svaraði með því að kýla tvo þeirra. Upptökur í eftirlitsmyndavélum þóttu sýna að Ranger hafi slegið frá sér í sjálfsvörn.

Hann hljóp svo af vettvangi en þegar lögregla reyndi að færa hann í varðhald brást hann við með því að ýta lögreglumönnunum frá sér, með þeim afleiðingum að þeir hlutu minniháttar skaða af.

Hann þarf að greiða lögregluþjónunum 150 þúsund krónur í skaðabætur en ef hann heldur skilorði næstu tólf mánuðina þarf hann ekki að taka út frekari refsingu vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×