Fótbolti

Rooney: Ég spilaði ekki vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Wayne Rooney viðurkennir að hann hafi ekki náð sínu besta fram í leik Englands og Póllands í undankeppni HM 2014 í gær. Leiknum lauk með jafntefli, 1-1, og skoraði Rooney mark Englendinga.

„Ég veit að ég get spilað betur," sagði Rooney en hann var tekinn af velli á 73. mínútu. „Þetta var erfitt. Ég hljóp mikið í fyrri hálfleik og fór svo á vinstri kantinn í seinni hálfleik. Ég var því nokkuð þreyttur og get því ekki kvartað yfir því að hafa verið tekinn af velli."

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á þriðjudagskvöldið en honum var frestað vegna mikillar rigningar. Völlurinn í Varsjá var á floti.

„Völlurinn var ekki frábær og reyndi mikið á lappirnar. En það var gaman að skora."

England er í efsta sæti H-riðils en Svartfjalland er einu stigi á eftir og á þar að auki leik til góða. „Strákarnir eru ekki ánægðir með þetta og við vitum að við getum gert betur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×