Fótbolti

Englendingar tóku svefntöflur í Póllandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins.
Roy Hodgson, þjálfari enska landsliðsins. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar fullyrða að sumir leikmanna enska landsliðsins hafi tekið svefntöflur fyrir leik liðsins gegn Pólverjum í gær.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á þriðjudaginn en var frestað vegna veðurs. Fullyrt er að um kvöldið hafi nokkrir leikmenn tekið töflur til að hjálpa sér að festa svefn.

Enn fremur er greint frá því að leikmenn hafi svo tekið koffeintöflur fyrir leikinn sjálfan en honum lauk með 1-1 jafntefli.

Enska knattspyrnusambandið hefur ekki viljað tjá sig um þessar fregnir en Rio Ferdinand, leikmaður Manchester United og fyrrum landsliðsmaður, furðar sig á því að þetta þyki fréttnæmt.

„Leikmenn hafa notað svefn- og koffeintöflur í mörg ár, án þess að það hafi vakið umtal," skrifaði hann á Twitter-síðu sína og Phil Neville, fyrirliði Everton, tók í svipaðan streng.

„Ég hef tekið svöfntöflur kvöldið fyrir leik og kaffeintöflur á leikdegi margoft á mínum ferli. Það hefur aldrei þótt vandamál í fjölmiðlum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×