Íslenski boltinn

Logi þjálfar Stjörnuna - Rúnar Páll aðstoðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Ólafsson og Rúnar Páll Sigmundsson.
Logi Ólafsson og Rúnar Páll Sigmundsson. Mynd/Valli
Logi Ólafsson var í dag kynntur sem nýr þjálfari Stjörnunnar í Pepsi-deild karla en Logi stýrði Selfyssingum í sumar. Logi tekur við liðinu af Bjarna Jóhannssyni. Þetta var fyrst staðfest á heimsíðu stuðningsmannasveitar Stjörnunnar.

Rúnar Páll Sigmundsson verður Loga til aðstoðar, en hann mun að auki sjá um þjálfun á 2.flokki félagsins og afreksþjálfun yngri leikmanna.

Stjörnumenn enduðu í 5. sæti í Pepsi-deildinni í sumar og komust alla leið í bikarúrslitaleikinn. Liðið steig mörg stór skref undir stjórn Bjarna Jóhannssonar sem tók við liðinu í 1. deild en fyrsti titilinn lætur enn bíða eftir sér. Logi hefur gert bæði Víkinga og Skagamenn að Íslandsmeisturum.

Tilkynningin inn á heimsíðu Silfurskeiðarinnar:

Logi Ólafsson ráðinn þjálfari Stjörnunnar

Knattspyrnudeild Stjörnunnar hefur ráðið Loga Ólafsson sem þjálfara meistaraflokks karla hjá félaginu til næstu tveggja ára. Rúnar Páll Sigmundsson verður Loga til aðstoðar, en hann mun að auki sjá um þjálfun á 2.flokki félagsins og afreksþjálfun yngri leikmanna.

Ráðning Loga og Rúnars Páls staðfestir þann metnað knattspyrnudeildar Stjörnunnar að koma karlaliði félagsins í fremstu röð. Í ár vantaði herslumuninn á að koma liðinu í röð þeirra bestu á landinu. Leikmannahópur félagsins verður lítið breyttur milli ára, en leitast verður við að styrkja hann frekar. Því eru forsendur til að ná betri árangri en áður. Þá er mikill efniviður í yngri flokkum félagsins, sem hafa verið sigursælir á undanförnum árum.

Logi Ólafsson hefur átt farsælan feril í þjálfun. Eitt af hans fyrstu verkefnum var að þjálfa meistaraflokk Stjörnunnar ásamt Kristni Björnssyni árið 1986. Hann hefur bæði þjálfað kvenna- og karlalandslið Íslands. Lið undir stjórn Loga hafa tvisvar hampað íslandsmeistaratitli og einu sinni bikartitli í karlaflokki. Logi er uppalinn Stjörnumaður.

Rúnar Páll Sigmundsson hefur þjálfað lið í meistaraflokki karla sl. 5 ár. Hann starfaði hjá HK á árunum 2008 og 2009. Síðan þá hefur hann þjálfað lið Levanger í Noregi með góðum árangri. Rúnar Páll er uppalinn Stjörnumaður.

Knattspyrnudeild Stjörnunnar býður þá Loga og Rúnar Pál velkomna heim og væntir mikils af þeirra framlagi til félagsins á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×