Enski boltinn

Mancini: Carlos Tevez er breyttur maður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að sóknarmaðurinn Carlos Tevez sé allt annar og breyttur maður í dag.

Fyrir ári síðan neitaði Tevez að hita upp þegar hann var beðinn um það í leik City gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu. Hann lék ekki aftur með City í hálft ár eftir það en kom til baka og varð Englandsmeistari með City í vor.

„Samband mitt við Carlos er gott. Ég er ánægður með hvernig við tókum á þessu máli," sagði Mancini í samtali við enska fjölmiðla.

„Hann tók sín mál föstum tökum fyrir þetta tímabil og lagði meira á sig en hann hefur gert í 4-5 ár. Ég er ánægður með hann og við tölum ekki lengur um það sem gerðist í München. Við höfum talað nóg saman," bætti Mancini við.

„Carlos er sóknarmaður í fremstu röð, einn sá allra besti í ensku úrvalsdeildinni. Það hefur ekkert breyst. Hann er enn toppleikmaður og afar mikilvægur fyrir okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×