Enski boltinn

Spánverjarnir sáu um Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chelsea styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með góðum 2-1 útivallarsigri á Arsenal. Spánverjarnir Fernando Torres og Juan Mata skoruðu mörk Chelsea.

Torres stýrði fyrirgjöf Mata úr aukaspyrnu í netið á 20. mínútu leiksins en Gervinho jafnaði metin fyrir Arsenal í lok fyrri hálfleiks með laglegu skoti.

Seinna mark aukaspyrnu kom einnig eftir aukaspyrnu en í þetta sinn skoraði Mata beint úr spyrnunni. Laurent Koscielny virtist hins vegar hafa snert boltann örlítið en hann virtist hvort eð er vera að stefna í markhornið fjær.

Arsenal átti nokkrar efnilegar sóknir eftir það en Petr Cech, markvörður Chelsea, var vel á verði auk þess sem að heimamenn fóru sjálfir illa með nokkur færi.

Chelsea er nú með sextán stig af átján mögulegum og er sem fyrr á toppi deildarinnar. Arsenal er enn með níu stig í sjötta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×