Enski boltinn

Tottenham vann langþráðan sigur á United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Tottenham hafði betur gegn Manchester United, 3-2, í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er fyrsti sigur Tottenham á Old Trafford síðan 1989.

United lenti í miklu basli í fyrri hálfleik og voru langt frá sínu besta. Tottenham-menn gengu á lagið og skoruðu tvívegis. Jan Verthongen skoraði strax á upphafsmínútum leiksins og Gareth Bale bætti svo öðru við á 32. mínútu.

Wayne Rooney kom inn á sem varamaður fyrir Ryan Giggs í hálfleik og breytti leik heimamanna mikið.

Í upphafi hálfleiksins komu svo þrjú mörk á jafn mörgum mínútum. Nani minnkaði muninn með skoti eftir fyrirgjöf Wayne Rooney áður en Clint Dempsey endurheimti tveggja marka forystu Tottenham strax í næstu sókn.

Þá var komið að Shinji Kagawa sem náði að minnka muninn í eitt mark eftir sendingu Robin van Persie.

Rooney komst svo næst því að jafna metin en skot hans beint úr aukaspyrnu hafnaði í stöng. 3-2 reyndust lokatölur leiksins og Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham, fagnaði dýrmætum sigri.

Tottenham kom sér upp í fimmta sætið með sigrinum en liðið er með ellefu stig eftir fimm leiki. United er í þriðja sætinu með tólf stig.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður í liði Tottenham á 70. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×