Fótbolti

Mesti ruddinn í boltanum? - sparkaði í haus mótherja eftir 41. rauða spjaldið á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerardo Bedoya er kannski ekki þekktasta nafnið í boltanum en það má segja að þessi 37 ára gamli Kólumbíumaður sé heimsmethafi í ruddaskap því hann er sá atvinnumaður sem hefur fengið flest rauð spjöld á atvinnumannaferlinum.

Bedoya missti enn á ný stjórn á skapi sínu á dögunum í nágrannaslag milli Bogota-félaganna Independiente Santa Fe og Millonarios í kólumbísku deildinni. Bedoya fékk þá rautt spjald fyrir olnbogaskot og sparkaði síðan í höfuð mótherjans þegar hann lá emjandi í jörðinni. Dómarinn var búinn að lyfta rauða spjaldinu áður en Bedoya sparkaði í Yhonny Ramirez, leikmann Millonarios.

Gerardo Bedoya var þarna að fá sitt 41. rauða spjald á atvinnumannaferlinum sem er heimsmet. Hann þarf að taka út fimmtán leikja bann en það kemur aðallega til vegna þess að hann sparkaði í Ramirez þar sem hann lá á jörðinni. Það er hægt að sjá atvikið með því að smella hér fyrir ofan.

Gerardo Bedoya er á sínu fyrsta tímabili með meistaraliði Independiente Santa Fe en hann lék 49 landsleiki fyrir Kólumbíu á árunum 2001 til 2009. Hann spilaði stærsta hluta ferils síns í Argentínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×