Enski boltinn

Barton um Terry: Þetta er farsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joey Barton, leikmaður Marseille í Frakklandi, segir að refsingin sem John Terry fékk í gær sé allt of væg.

Terry var í gær dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand, leikmann QPR.

Barton er nú lánsmaður hjá Marseille frá QPR en hann er nú að afplána tólf leikja bann fyrir rautt spjald og framkomu sína í leik QPR gegn Manchester City í vor.

„Ég held að þetta tali sínu máli. Þvílíkur farsi. Tólf leikja bann fyrir ofbeldisfulla framkomu og aðeins fjögurra leikja bann fyrir þetta. Enska knattspyrnusambandið ætti að skammast sín,“ skrifaði Barton á Twitter-síðu sína í gær.

„Samkvæmt þessu hefði ég fengið vægari refsingu fyrir kynþáttaníð gagnvart leikmönnum Manchester City frekar en að kitla þeim eins og ég gerði. Hvernig getur það mögulega staðist?“

Allt útlit er fyrir að John Terry muni spila með Chelsea gegn Arsenal um helgina. Hann hefur tveggja vikna frest til að áfrýja og tekur refsingin ekki gildi þar til hann ákveður sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×