Enski boltinn

Ferdinand: Upptökur ljúga ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Anton Ferdinand hefur í fyrsta sinn tjáð sig um málefni sín og John Terry en sá síðarnefndi var í gær dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir að beita Ferdinand kynþáttaníði.

Atvikið átti sér stað í leik Chelsea og QPR fyrir tæpu ári síðan og hefur Ferdiand ávallt neitað að tjá sig um það.

Terry varð uppvís að því að nota niðrandi orð gagnvart Ferdinand en sjónvarpsupptaka þótti sýna með greinilegum hætti hvað hann lét út úr sér.

„Fólk ætti að kynna sér staðreyndir málsins áður en það sendir mér heimskuleg skilaboð og saka mig um lygar. Upptökur ljúga ekki," sagði Ferdinand á Twitter-síðu sinni í dag.

Terry var sýknaður í almennum dómstólum í sumar en óháð nefnd sem var skipuð af enska knattspyrnusambandinu ákvað að refsa honum með fjögurra leikja banni og 45 milljóna króna sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×