Innlent

Hundurinn slapp ómeiddur - íbúar þurfa að gista annarsstaðar í nótt

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. MYND / GIG
Um fimmtán íbúar í húsinu í Ofanleiti, þar sem sprenging varð í morgun, leituðu til Rauða Krossins, sem er með höfuðstöðvar skammt frá húsinu. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Rauða Krossins, Teiti Þorkelssyni, fengu íbúarnir að sækja helstu nauðsynjar í dag en þeir þurfa að gista annarsstaðar í nótt.

„Þau fengu sér kaffi og hressingu og teppi. Þá var spjallað við þau um atburðinn," segir Teitur. Spurður um andlegt ástand íbúanna segir hann að þeir hafi verið rólegir. „Það voru allir þokkalega rólegir. En við leystum þau út með bæklingum um áfallastreitu þar sem stundum áttar fólk sig ekki á áfallinu fyrr en nokkru síðar," segir Teitur.

Eins og greint hefur verið frá þá var einn karlmaður inni í íbúðinni þegar sprengingin varð. Nágrannar mannsins aðstoðuðu hann út úr íbúðinni en hann stóð í lappirnar og var með meðvitund fyrstu mínúturnar eftir sprenginguna. Hann liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans þar sem honum er haldið sofandi. Hann er í lífshættu.

Stöð 2 greindi frá því í kvöld að hundur mannsins hafi verið inni í íbúðinni þegar sprengingin varð. Hundurinn virðist hafa sloppið ómeiddur.

Ekki er vitað hvernig sprenginguna bar að. Slökkviliðsmenn sem fréttastofa hefur rætt við í dag sögðu ólíklegt að þarna væri um hefðbundna gassprengingu að ræða. Krafturinn væri bæði of mikill og þeim fylgir sjaldnast svona mikill eldsvoði eins og í þessu tilviki. Krafturinn var gríðarlegur, veggir gengu til og brak og glerbrot þeyttust tugi metra út úr íbúðinni.

Heill gaskútur fannst í íbúðinni og er ekki lokið skotið fyrir það að fleiri kútar hafi verið í íbúðinni, sem hafa þá hugsanlega sprungið. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×