Fótbolti

Kristinn dæmir í Svartfjallalandi á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Mynd/Daníel
Kristinn Jakobsson mun dæma leik Svartfjallalands og Póllands í undankeppni HM 2014 en leikið verður í Podgorica í Svartfjallalandi á morgun. Kristni til aðstoðar verða þeir Sigurður Óli Þorleifsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson og fjórði dómari er Þóroddur Hjaltalín. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Leikurinn er í H riðli undankeppninnar en aðrar þjóðir í þessum riðli eru: England, Moldavía, San Marínó og Úkraína.

Kristinn dæmdi tvo leiki í síðustu undankeppni EM, leik Albaníu og Bosníu annarsvegar og svo leik Skotlands og Litháen hinsvegar. Kristinn dæmdi líka þrjá leiki í undankeppni HM 2010 þar á meðal jafnteflisleik Pólverja á heimavelli á móti Slóveníu og 4-0 sigur Englendinga í Kasakstan.

Það er annars nóg að gera hjá okkar fremsta FIFA-dómara því Kristinn hefur síðustu daga verið staddur í höfuðstöðvum UEFA í Nyon þar sem hann tók þátt í undirbúningsráðstefnu fremstu dómara í Evrópu.

Þangað voru boðaðir þeir dómarar sem dæma eiga í riðlakeppni Meistara- og Evrópudeildar UEFA. Kristinn er þarna enn einu sinni í hópi dómara í fremstu röð í Evrópu sem er mikil viðurkenning fyrir störf hans og íslenskra dómara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×